Mazda kynnir Mazda6e rafbíl á bílasýningunni í Brussel
Rafbíllinn er nýjasta viðbótin í flota Mazda og sameinar glæsilega hönnun, afköst og þægindi.
Frammistaða sem hentar öllum þörfum
Mazda6e rafbíllinn býðst með tveim drifrafhlöðustærðum. Annars vegar 68,8 kWh rafhlöðu með allt að 479 km drægni og hraðhleðslu úr 10% í 80% á aðeins 22 mínútum.
Hraðhleðsla bætir við 235 km drægni á einungis 15 mínútum, og rafmótorinn skilar 258 hestöflum. Fyrir þá sem vilja enn meiri drægni er í boði stærri 80 kWh drifrafhlaða sem býður allt að 552 km drægni.
Báðar útfærslur veita 320 Nm togkraft og hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. á innan við 8 sekúndum.
Hönnun sem fangar augað
Mazda6e rafbíllinn sýnir næsta skref í „Kodo: Soul of Motion“ hönnunarstefnu Mazda. Sléttar, flæðandi línur og kraftmikið útlit gefa bílnum sterka ásýnd.
Flæðandi þaklínan og stutt skott veita sportlegt yfirbragð án þess að skerða notagildi fimm dyra hönnunarinnar. Nýstárlegir eiginleikar í hönnuninni eru meðal annars sérstök ljósamerki, rammalausar dyr og innfelldir hurðarhúnar sem skila straumlínulögðu og nútímalegu útliti.
Fjögurra ljósa hönnun að aftan og vindskeið undirstrika sportlegt yfirbragð bílsins.
Rúmgóð og nýtískuleg innrétting
Innréttingin í Mazda6e rafbílnum byggir á japönsku hugmyndafræðinni „ma“, þar sem áhersla er lögð á einfaldleika og opið rými. Farþegar að framan og aftan njóta rúmgóðs fótarýmis og glerþak hleypir inn náttúrulegri birtu.
Innréttingin er hönnuð með vönduðum efnum sem skapa stílhreint og rólegt andrúmsloft.
Mazda6e rafbíllinn er fáanlegur í tveimur útfærslum. „Takumi“ býður upp á gervileðurklæðningu í beige eða svörtum litum, á meðan „Takumi Plus“ bætir við Nappa-gervileðri í tan lit og rafdrifnu sólskyggni.
Snjalltækni sem þjónar ökumanninum
Mazda6e rafbíllinn er búinn snjallri stafrænni tækni sem einblínir á þægindi og einfalda notkun. Stafrænt mælaborð og 14,6 tommu snertiskjár mynda miðpunkt stjórnkerfisins, ásamt framrúðuskjá með sýndarveruleikamöguleikum sem birtir lykilupplýsingar eins og vegaleiðsögn og hraða beint í sjónlínu ökumanns.
Hljóðkerfið býður upp á óviðjafnanlega hljóðupplifun með 14 hátalara SonyPRO® hljóðkerfi, sem tryggir hágæða hljóm í hverju sæti.
Öryggi í Mazda6e rafbílnum
Mazda leggur áherslu á öryggi í Mazda6e rafbílnum. Nýstárlegt farþegaskynjunarkerfi nemur hvort börn séu í aftursætum og birtir mynd þeirra á miðlægum skjá. Viðvörun heyrist ef ökumaður yfirgefur bílinn án þess að athuga aftursætin.
Bíllinn er búinn níu loftpúðum og háþróuðu akstursaðstoðarkerfi með neyðarhemlun, veglínuskynjurum, og fjarlægðarstillanlegum hraðastilli.
Mazda6e rafbíllinn verður fáanlegur í Evrópu sumarið 2025 og býður upp á einstaka samblöndu af akstursánægju, japönsku hugviti og nútímalegri tækni